Vestmannaeyingar - Ísfirðingar.
3.9.2008 | 20:59
Ég var á spjalli við kunningja minn sem er brottfluttur Vestamanneyingur. Hann sagði mér frá bók sem kom út í eyjum, bókin gekk út á að upplýsa fólk um viðurnefni eyjafólks og hvernig þau voru tilkomin. Bókin særði marga því þegar viðurnefni eru farin að snúast um útlit fólks, hegðun og/eða slúður þá er það ekki viðurnefni heldur uppnefni. Ég held að þessi bók hafi ekki haft sagnfræðilegt né bókmenntalegt gildi og hvað þá sem skemmtiefni.
Ég þekki það vel að fólk hafi viðurnefni enda alin upp á Ísafirði. Þessi kunningi minn sagðist hafa farið á árgangsmót og þar hafi ein skólasystra hans sem hafði hlotið uppnefni tjáð sig um það hvað hún hafði liðið fyrir þetta. Og þvíumlíkt hvað ég skammaðist mín sagði hann. Auðvita líður fólk fyrir svona og jafnvel svo börn viðkomandi. Er þetta ekki einelti og andlegt ofbeldi? Hvaða tilgangi þjónar að færa svona til bókar?
Á mínum uppvaxtarárum á Ísafirði voru margir með viðurnefni t.d Guðjón Arnar Kristjánsson (Addi Kitta Gau) Addi fyrir Arnar ,Kitti Gau fyrir Kristján Guðjónsson sem var faðir hans. Sigurður Ólafsson var kallaður Freysi Toll móðir hans hét Freyja og faðir hans var tollari svolítið langsótt það.
Það voru líka mörg meiðandi uppnefnin sem ég hirði ekki um að nefna því ég skammast mín að hafa tekið þátti í þessu. Ég vona að Ísfirðingar eigi ekki eftir að færa uppefni til bókar og leyfi svona ósið að deyja út.
es. Ég er drullusokkur nr 72 og það er val. Ég er í mótorhjólaklúbbi Vestmannaeyinga sem heitir Drullusokkar. Formaðurinn heitir Tryggvi Beikon, ekki veit ég afhverju en aldrei dettur mér í hug beikon þegar ég tala við hann eða sé.
Athugasemdir
Ekki málið Hippo minn,ég er bara ánægð með kveðjuna Takk.
Rannveig H, 3.9.2008 kl. 21:17
Hallgerður: ,Eg er ánægð að heyra það svona á ekki að þrífast.Gísli Pálsson mannfræðingur skrifaði um hana ég er ekki búin að sjá þá grein ,en hann sagði mér að bókin væri eftir kennara það finnst mér skandal.
Rannveig H, 3.9.2008 kl. 21:45
Samúða yfir þig frírri samúð með síhækkandi aldur, sem þú berð bara vel um þínar varir...
Ísfirðíngar eru bezta fólk, (þóðanúværi), en lángwerztumannaeyjíngar eru útþynnt hrat afkomenda þeirra sem að hundtyrkinn frá Alzír meira að segja vildi ekki í den !
En vænstu skinn inn á milli.
Steingrímur Helgason, 3.9.2008 kl. 22:23
Hæ Rannveig. Ég er ekki alveg sammála þér með þessi viðurnefni(uppnefni).Þekki reyndar ekki til þessa máls í Eyjum en man eftir þessu að vestan. Viðurnefni þar voru og eru mörg. 1972 var ég að vinna með Hávarði Valdimarssyni, sem var að vestan,og lét hann mig fá áskrifað blað með viðurnefnum sem að voru til er hann var að alast þar upp.Sem að líklega hefur verið snemma á þeirri öld. Því miður týndi ég þessu blaði.
En ég skrifaði um þetta annars staðar, eins og þetta horfir við mér og set það hér inn.Þú tekur það bara út ef að þér líkar það ekki.
29 júní 2006
Þegar ég var lítill þ.e. minni, bjó ég í nokkur ár fyrir vestan. Er reyndar ættaður þaðan og er betri fyrir vikið. Það var gott að vera krakki fyrir vestan og kynntist ég þar mörgu góðu og áhugaverðu fólki og má segja að þessi ár hafi mótað mann að mestu. Á þessum árum var ekki farið að sortera úr þá sem voru aðeins öðruvísi og ekki bjuggu fleiri þarna en að hægt væri að muna flest nöfn eða að vita hverra manna einhver var. Tók ég fljótt eftir að flestir höfðu viðurnefni, kenndir við vinnu sína, móður, hús eða annað. Man ég eftir nokkrum eins og : Jói í Damminu, Siggi sperrirófa, Dolli sígaretta, Jolli kryppa, Diddi dvergur, Geiri með bótina, Daddi brasi, barna Leifur, Gvendur þari, Púka Pétur, Litli vísir, Svenni skottís, Ívar beinlausi, Peta túkall, Binni á löppinni og Gilli kropp. Allt var þetta eflaust hið mætasta fólk, sem ávann sér viðurnefni vegna “karakters” eða annars og er mér eftirminnilegra en margur “fyrirmyndarborgarinn” og sléttjóninn.
Það var gott að vaxa úr grasi fyrir vestan og römm er sú taug...................
Kveðja
Y
Yngvi Högnason, 3.9.2008 kl. 22:37
Ég ólst upp í Eyjum og þetta var mikið um þetta þar eins og allir vita.Það er oft sem ég er spurð um hina og þessa Eyjamenn og hef ekki hugmynd um hvern er verið að tala um þá er það oft annað nafn sem viðkomandi gekk undir.
Afi minn gekk undir nafninu Grjóta Mangi.Hann var hleðslumaður og hlóð Eiðið í Eyjum og gekk undir þessi nafni til dauðadags.
Anna Ragna Alexandersdóttir, 3.9.2008 kl. 22:50
Steingrímur: Nú er það bara seinni gelgjan og fjörið rétt að byrja.Eyjafólk er flott,en auðvita berum við af eða þannig.
Rannveig H, 3.9.2008 kl. 23:00
Yngvi: Ég man eftir öllu þessu fólki sem þú nefnir,og allt þetta fólk var hið mætasta,og ég eins og þú er þakklát að hafa alist upp með því og mótast af mínu umhverfi.Að vera kenndur við móðir sína, hús eða vinnu eins og t,d Daddi brasi(kokkur)það kalla ég viðurnefni. En mikið af þessum nöfnum voru uppnefni. Ég sé ekki neina ástæðu að taka þetta út ,enda allt þetta fólk gengið á fund feðra sinna fyrir löngu.
Rannveig H, 3.9.2008 kl. 23:16
Anna: Nafnið hjá afa þínum finnst mér vera viðurnefni,ekki uppnefni.Eins og Steinunn vinkona okkar þekkist bara í eyjum sem Steinunn á gamla spítalanum,hún er kennd við húsið sitt.
Rannveig H, 3.9.2008 kl. 23:22
En var Rannveig með uppnefni/viðurnefni????
Halla Rut , 4.9.2008 kl. 16:34
Halla: Ég var oft kölluð Ranka og fannst það hræðilegt þá en í dag finnst mér það bráðskemmtilegt nafn
Rannveig H, 4.9.2008 kl. 16:57
Já það voru margir uppnefndir, og sumir fyrir litlar sakir, eitt besta dæmið eru bræðurnir Bjössi og Gústi grjóti, en þeir og margir þeirra niðujar hafa fengið Grjóta nafnið. Og það er heil blokk sem kallast Grjótaþorpið. Tilefnið var að faðir Gústa og Bjössa var sjómaður, hann réri til fiskjar og einn daginn fékk hann mikinn afla, þegar aðrir fengu lítið sem ekkert, hvað er þetta, sagði hann beitið þið grjóti eða hvað. Og síðan hefur þetta heldur betur undið uppá sig, í rauninni saklaust, en það voru ekki öll nöfnin saklaus. Og ég man eftir að Spessi, ljósmyndarinn þjóðkunni, sagði frá því í viðtali að hann hefði alla tíð liðið fyrir sitt uppnefni, en svo tók hann upp spessanafnið sem listamannsnafn.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.9.2008 kl. 18:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.